Miðasala á midi.is. Blúshátíð í Reykjavík 2018

Miðasala er hafin á midi.is hér https://midi.is/concerts/1/10385/Blushatid_2018

Blues2018-facebook-timeline

Blúshátíð í Reykjavík 27. til 29. mars.
Á Blúshátíð í Reykjavík 2018 verða þrennir stórtónleikar á Hilton Reykjavík Nordica í dymbilviku, á þriðjudags- miðvikudags- og fimmtudagskvöld:

Blúsmiðinn 
Blúsmiðinn veitir aðgang að öllum þremur stórtónleikunum á Hilton Reykjavík Nordica. Takmarkað magn í boði, fyrstir kaupa fyrstir fá.

Stórtónleikar þriðjudaginn 27. mars kl. 20.00.
Laura Chavez og Ina Forsman – Beggi Smári og Nick Jameson – Blúsaðasta band Músíktilrauna

Blúshátíð í Reykjavík hefst með látum enda er engin logmolla í kringum Lauru Chavez og Inu Forsman, þvert á móti. Ina Forsman kom eins og hressandi hvirfilbylur inn í blúsheiminn og hefur frá fyrsta degi vakið eftirtekt og aðdáun fyrir túlkun, kraft og rödd sem þykir bæði vera undur mjúk og ansi hrjúf. Laura Chavez er frábær gítarleikari, sögð vera einn besti blúsgítarleikari samtímans og stendur fyllilega undir því, kraftmikil og ljóðræn í senn. Áhorfendur um allan heim hafa kolfallið fyrir spilagleði og líflegri sviðsframkomu þeirra.

Fyrir hlé ráða Beggi Smári og Nick Jameson ríkjum á stóra sviðinu ásamt Friðriki Júlíussyni á trommur Pétri Sigurðssyni á bassa. Á matseðlinum er kraftmikill blús, fjör og vænn skammtur af bráðsmitandi stemningu. Allra fyrst á sviðið verður blúsaðasta band Músíktilrauna 2018. Þetta er spennandi!

Stórtónleikar miðvikudaginn 28. mars kl. 20.00.
Larry McCray og The Blue Ice band – Langi Seli og Skuggarnir – Lúðrasveitin Svanur

Gítarleikarinn, söngvarinn og lagahöfundurinn Larry McCray hefur verið leiðandi í bandarískum blús síðustu 25 árin. Larry hefur verðskuldað verið valinn besti blúsleikari Bandaríkjanna og það verður sannkölluð upplifun að sjá hann á Blúshátíð. Strákarnir í The Blue Ice Band iða í skinninu eftir því að fá spila með  þessum snillingi.

Langi Seli og töffararnir í Skuggunum trylla gesti hátíðarinnar með nýju efni og eldi smellum fyrir hlé en fyrst mun brassið ráða ríkjum. Já, Lúðrasveitin Svanur hitar fólk upp með sannkölluðum New Orleans bræðingi. Þetta er uppskrift að fjöri!

Stórtónleikar fimmtudaginn, 29. mars, kl. 20.00.
Íslenskur blús í hæsta gæðaflokki

Á skírdagskvöld verður boðið upp á íslenska blúsveislu sem getur ekki klikkað. Fyrir hlé leiðir Tryggvi Hübner hljómsveit þar sem Haraldur Þorsteinsson er á bassa, Ásgeir Óskarsson á trommum og Magnús Jóhann á hljómborð. Flestir þeirra voru í hljómsveitinn EIK og nokkur lög þessarar goðsagnakenndu hljómsveitar munu heyrast á hátíðinni.

Eftir hlé bætast fleiri stjörnur í hópinn; Björgvin Gíslason, Sigurður Sigurðsson, Davíð Þór Jónsson, Guðmundur Pétursson, Óskar Logi, Stefanía Svavarsdóttir, Halldór Bragason, Róbert Þórhallsson og fleiri og fleiri. Á sviðinu verður rjóminn af íslenskum blústónlistarmönnum sem bjóða upp á blús af bestu sort. Þetta verður ekki betra!

Klúbbur Blúshátíðar verður opinn á Hilton Reykjavík Nordica eftir alla tónleikana og þar gerast undur og stórmerki. Reynsluboltar, ungliðar og frægir leynigestir hræra saman   þjóðlegum íslenskum blús, Mississippi blús, rokki og öðrum skemmtilegheitum fyrir lífsglaða nátthrafna.

Blúshátíð í Reykjavík hefst laugardaginn 24. mars með Blúsdegi í miðborginni þar sem  Blúshátíðin leggur Skólavörðustíginn undir sig. Við setningu hátíðarinnar verður tilkynnt um val á heiðursfélaga Blúsfélags Reykjavíkur 2018. Boðið verður upp á lifandi blús víða á Skólavörðustígnum frá klukkan 14.00 til 16.00. Kveikt verður upp í grillunum og boðið upp á kjúklingavængi og fleira.

Tónleikar á Borgarbókasafni kl. 16.00.
Facebook https://www.facebook.com/www.blues.is

Eins og undanfarin ár aðeins er tekin frá sæti fyrir matargesti VOX. Veitingahúsið VOX á Hilton Reykjavík Nordica ætlar að bjóða uppá sérstakan matseðil í tilefni Blúshátiðar. Matargestir VOX fá frátekin sæti á tónleikunum kl 20 um kvöldið. VOX restaurant / bistro – Hilton Reykjavik Nordica – Suðurlandsbraut 2 Sími: 444 5050 – vox@vox.is http://www.vox.is/

Hátíðin er styrkt af Reykjavíkurborg.

logosupa

Comments are closed.