Sagan

Blús er upprunnin í Suðurríkjum Bandaríkjanna.  Blúsinn er alþýðutónlist blökkumanna og hafa margir reynt að finna fæðingarvottorð blúsins en án árangurs. Það þarf að fara aftur í tímann til að skilja þann þjóðfélagslega bakgrunn sem blúsinn spratt úr.

Blús er ekki bara tónlist, blús er hugarástand og það er kaldhæðnislegt að hugsa til þess að þessi tónlist sem hefur veitt svo mörgum ánægju er sprottin uppúr mikilli þjáningu.

Blúsinn á rætur í von og vilja til að gefast ekki upp fyrir þjáningum kynþáttamisréttis, grimmd og ofsóknum hvíta mannsins. Blúsinn er sunginn með djúpri tilfinningu, sungið er um ástir, lífið og tilveruna og hvernig hægt er að sigrast á erfiðleikum. Kímnigáfa og kaldhæðni er aldrei langt undan.

Rætur blúsins liggja í þrælahaldinu en sá tími er milljónir þræla voru fluttir frá Afríku til nýja heimsins  er eitthvert grimmilegasta tímabil vestrænnar sögu. Menn, konur og börn voru tekin af heimilum sínum og flutt vestur um haf við ömurlegar aðstæður. Við komuna til Vesturheims gengu þessar manneskjur kaupum og sölum eins og hvert annað heimilisdýr. Fjölskyldum var sundrað, þrælarnir pyntaðir til hlýðni og settir í þrælkunarvinnu.

En tónlist Afríku bjó í hjörtum þessa fólks og flutti með þeim yfir hafið. Þeir bjuggu sér til hljóðfæri og tónlist þeirra gekk mann fram af manni.

Fyrstu þrælarnir voru fluttir til nýja heimsins 1619.  Árið 1700 voru 28.000 þrælar í Ameríku en hundrað árum síðar var sú tala komin í eina milljón. 1865 var þrælahald afnumið í Bandaríkjunum eftir 4 ára borgarastríð milli Suðurríkjanna og Norðurríkjanna.

 

Á 19. öld fóru blökkumenn að hafa áhrif á tónlistarlífið í Bandaríkjunum.   

Jafnvel áður en þrælahald var afnumið höfðu menn byrjað að safna saman negrasálmum og eftir þessu var tekið.

Svartir tónlistarmenn urðu vinsælir innan hvíta samfélagsins. Þeir léku tónlist sína á fljótabátum og trúarsamkomum og svartir kórar og lúðrasveitir unnu hug og hjörtu allra kynþátta.

Sú tónlist sem seinna var kölluð blús kom fram í dreifbýli Suðurríkjanna þar sem þrælar höfði stritað áratugum saman við vinnu á baðmullar-, tóbaks-  og hrísgrjónaplantekrum. Grimmdin sem þrælarnir voru beittir kom fram í tónlistinni sem þeir sungu.  Söngvarnir voru um harðræði,  sársauka og fyrirheitna landið sem var gamla Afríka. Sunnudagar voru trúardagar og á laugardagskvöldum gerðu menn sér glaðan dag. Menn dönsuðu og sungu við undirleik heimatilbúinna hljóðfæra og þessi suðupottur trúar, vinnu, harðræðis, og lífsgleði skapaði það umhverfi sem þróaði blúsinn.

Það var ekkert útvarp, geisladiskar eða sjónvarp til fyrir rúmum 100 árum síðan. Eina tækifærið til að heyra tónlist var  lifandi tónlistarflutningur.  Lögin fóru manna á milli með farandsöngvurum og farandpredikurum sem héldu sínar samkomur í sveitunum. Það sem við þekkjum sem blús, var sungið löngu áður en hugtakið sjálft varð til.

Enginn mun nokkurn tíma vita hver samdi fyrsta blúslagið enda eiginlega ekki hægt að nota orðið semja yfir eitthvað sem verður til í munnlegri geymd. Blúsinn spratt úr þeirri tónlist sem heyra mátti á götum Bandaríkjanna seint á 19. öld og byrjun þeirrar tuttugustu.

Á síðasta áratug 19. aldar komu fram tvær tónlistarstefnur í New Orleans. Önnur var svokallað ragtime þegar píanóleikarar leika lög lúðrasveita og banjoleikara. Þessi taktfasta tónlist barst eins og eldur í sinu, ekki síst fyrir störf frumherjans Scott Joplin, en hann hafði svo seinna mikil áhrif á Jelly Roll Morton.

Í hinu villta hverfi New Orleans, Storyville, byrjuðu menn að spila svarta og mjög taktfasta tónlist sem fljótlega fékk nafnið Jazz (djass) . Djass var spilaður af fingrum fram af mikilli tilfinningu. Djassinn þróaðist fljótt og um það leyti sem hinn ungi Louis Armstrong gekk til liðs við Kid Ory bandið 1918 var djassinn að hefja sigurför um heiminn.

Hrynjandi og laglínur sem heyra mátti í ragtime og djassi höfðu heyrst í tónlist sem hafði þróast frá 1870 og kom fyrst á hljómplötum árið  1920. Einn gagnrýnandi sagði um þessa tónlist: ” Villimannslegur hrynjandi með djöfullegri laglínu og lifandi tilfinningu sem kallað er blús!!”

Þessi einstaka tónlist, blús, var fyrst hjóðrituð þegar Mamie Smith söng Crazy blues 1920.

Höfundur

Halldór Bragason