Um félagið

Blúsfélag Reykjavíkur var stofnað þann 6. nóvember 2003 á Kaffi
Reykjavík. Þar komu saman helstu merkisberar blústónlistar
á Íslandi og spiluðu fyrir fullu húsi af áhugafólki um blús.
Tilgangur félagsins er að auka hróður blússins á Íslandi.
Markmiðið með stofnun Blúsfélags Reykjavíkur var að greiða fyrir
framgangi blústónlistar á Íslandi og sameina blúsáhugafólk í eitt
félag. Um aldamótin 2000 voru haldin blúskvöld á gamla Fógetanum
í Aðalstræti og þá kom upp sú hugmynd að búa til póstlista til að
gera fólki kleift að fylgjast með hvað væri á döfunni á vegum félagsins.
Netföngum gesta á blúskvöldum var safnað saman og árið 2003 voru
komin yfir 500 nöfn á listann og var þá í kjölfarið ákveðið að stofna
blúsfélag. Félagið fékk nafnið Blúsfélag Reykjavíkur og var fyrsta
Blúshátíð Reykjavíkur haldin á vegum þess á Hótel Borg um páskana
2004. Upp úr því var stofnað sérstakt félag um blúshátíðina sem ber
nafnið Blúshátíð í Reykjavík. Blúsfélag Reykjavíkur hefur tilnefnt
“Blúsmann ársins” á hverri Blúshátíð og fyrsti heiðursfélaginn var
valinn Magnús Eiríksson á stofnfundi blúsfélagsins á Kaffi Reykjavík
6. nóvember 2003.
Regluleg blúskvöld félagsins byrjuðu í október 2008 og voru haldin
fyrsta mánudag hvers mánaðar á Kaffi Rosenberg á vetrarmánuðum
í allmörg ár. Fyrsti formaður Blúsfélags Reykjavíkur var Halldór
Bragason en Jóhann Vilhjálmsson var kjörinn formaður haustið 2024.
Á aðalfundi félagsins haustið 2024 var núverandi stjórn kosin og
í henni eru auk Jóhanns Vilhjálmssonar formanns; Ásgeir Lárus
Ágústsson gjaldkeri, Jón Ingiberg Jónsteinsson ritari og Jakob Viðar
Guðmundsson, Gunnar Örn Sigurðsson, Jóhann Héðinsson og
Sigurbjörn Þorsteinsson meðstjórnendur.
Blúskvöldin voru endurvakin haustið 2024 og voru haldin blúskvöld
í Djúpinu yfir veturinn. Félagið stefnir að því að halda úti blúskvöldum
áfram í vetur.